Discover Weekly

Eitt sinn var sá háttur hafður á að maður tók öryggisafrit af öllum plötum sem manni hugnaðist að hlusta á eftir að hafa legið yfir mp3bloggum og Hype Machine að finna nýtt efni til að hlusta á, efni sem hreinlega beið uppgötvunar. Ef efnið var manni að skapi og maður fann eitthvað sem maður fílaði alveg sérstaklega mikið var veskið tekið upp og platan keypt í næstu búð eða á netinu. Helst beint frá býli ef það var þá hægt eins og oft var og er hægt að gera með minni listamenn sem ekki hafa brotist alla leið í gegn í þessum sturlaða bransa.

Eftir að Spotify og aðrar streymisveitur mættu á svæðið hefur hegðunarmynstrið breyst og maður er alveg hættur að lesa öll þessi mp3blogg. Spotify sem er mín streymiþjónusta hefur einhvern veginn alveg tekið við og hlustarmynstrið breyst eftir því.

Sá fídus sem ég elska hvað mest af öllu við Spotify kom í fyrra og kallast Discover Weekly.

Þessi yndislegi fídus sem ég elska mikið virkar þannig að hvern mánudag uppfærist playlisti í þínu Spotify sem heitir einfaldlega Discover Weekly. Hann uppfærist eftir því hvað maður hefur verið að hlusta á og Spotify nýtir öll sín gögn og kerfi til að finna út hvað maður ætti að fíla út frá þeirri hlustun og hvað aðrir sem hlusta á svipaða og sömu tónlist og maður sjálfur eru að hlusta á sem maður hefur ekki rennt í gegnum spilarann.

Þannig hef ég fundið falda mola sem hreinlega hafa gleymst og maður mundi hreinlega ekki eftir að væru til ásamt því að kynnast nýjum tónlistarmönnum sem og gömlum sem aldrei hafa fengið athygli hjá manni.

Þannig byrjaði einhver skrýtin ást mín á Norður-Írsku sveitinni Devine Comedy sem ég hef hundrað sinnum heyrt um en aldrei hlustað á. Hef verið með lagið Tonight We Fly á non-stop repeat síðan það datt inn á Discover Weekly listann minn.

 

Svo hafa Sænskir gullmolar dottið inn en ég hef alltaf verið veikur fyrir indie poppi og rokki frá Svíþjóð. Joel Alme sem ég veit í raun engin deili á hefur þar staðið uppi sem snillingur.


Ef þetta þá

Á netinu (Alnetinu svo að lesendur Morgunblaðsins fylgi mér) er óendanlegt magn af þjónustum og kerfum sem gera eitt og annað missniðugt. Sum kerfi eru betri en önnur og allt það og sum þeirra hef ég vanið mig á að að nota mikið og ég gæti bara ekki án þeirra verið.

Tvær þjónustur eru í uppáhaldi hjá mér og skora ansi hátt í ánægjuvog Kársnessins.

IFTTT.com

IFTTT stendur fyrir If this, then that. Þannig get ég búið til óendanlegt magn af reglum um hina og þessa hluti sem spara mér sporin og sjálfvirknivæða hluti sem annars gætu verið flóknir.

Reglur sem ég elska meira en allt eru til dæmis að Discover Weekly listinn á Spotify sem kemur á hverjum mánudegi og endurnýjast sjálfkrafa vikulega er vistaður sem nýr lagalisti á Spotify og þannig hverfur Discover Weekly listinn minn aldrei eða hverfur í eitthvað svarthol.

Ég skipti líka nokkuð oft um síma og þannig tapast bæði símtala og SMS sagan mín en hún vistast þökk sé IFTTT.com í Google Drive og þannig alltaf aðgengileg og til taks þurfi ég á henni að halda. Sem hefur reyndar aldrei gerst, en áfram held ég að vista þessi gögn þangað.

Ef að Arsenal skorar mark á fótboltaleik, sem gerist nokkuð oft en mætti gerast miklu oftar blikkar ein Philips Hue ljósapera heima hjá mér tvisvar með rauðu ljósi, það er nauðsynlegur fídus á hvert nútímaheimili þar sem ekki alltaf er tími til að horfa á fótbolta.

Ég skora á ykkur að kíkja á IFTTT, það er endalaust af uppskriftum þar inni og margar hverjar eru æðislegar. Það er bara þannig.

2000px-IFTTT_Logo.svg_

Inbox by Gmail

Tölvupóstur er eins og hann er. Oft tímaeyðsla, oft fullur af tölvupóstum sem maður hefur engan áhuga á og inn á milli koma póstar sem raunverulega skipta máli og maður annað hvort þarf að gefa gaum eða eru skemmtilegir. Hérna er ég að tala um minn einkapóst, í vinnunni nota ég Outlook og er reyndar mjög glaður með það.

Inbox frá Google tekur tölvupóst á uppá hærra plan, gerir hann jafnvel skemmtilegann ef það er þá hægt. En hvernig gerir Google það? Jú með því að vita hvað hver póstur raunverulega þýðir og inniheldur. Þannig týnist póstur frá vin eða ættingja ekki undir fréttabréfum frá Dominos eða hinum og þessum fyrirtækjum sem ég hef einhvern tímann átt viðskipti við. Heldur fær póstur frá einstaklingi meira vægi í algrími Google og flýtur þannig upp á topp. Að sama skapi get ég snoozað tölvupósta sem ég ætla að tækla síðar og þá flýtur hann upp þegar að því kemur og því ætti hann ekkert að fara framhjá mér.

Síminn minn er ekki að gefa frá sér hljóð þegar að Amazon sendir mér fréttabréf, heldur bara ef Amazon er að segja mér að pakkinn sé lagður af stað. Síminn minn er heldur ekki að gefa frá sér hljóð þegar að Twitter sendir mér tölvupóst en gerir það þegar að bróðir minn sendir mér tölvupóst því Inbox veit að sá póstur skiptir meira máli.

Inbox flokkar líka allan póst eftir tegund og innihaldi og þannig parast líkir póstar saman og flækjast því ekkert fyrir ásamt því að Google notar hæfileika sína í að greina póstana þannig að ef tölvupóstur inniheldur til dæmis tracking upplýsingar fyrir pakka að þá get ég með einum smelli séð hvar pakkinn og er síminn minn fær að vita af því líka og hann segir mér hvar pakkinn er. Gáfur Google eru miklar og mér gæti ekki verið meira saman hvort að þeir viti hvað ég var að kaupa, því þeir auðvelda mér svo ótrúlega mikið að fylgjast með öllu og viðhalda inbox zero.

Inbox er æði, bæði í tölvu, síma og spaldtölvu.

 

Listi – Tækjalisti #2

Tvö blogg á tveimur dögum! Hvað er eiginlega í vatninu á Kársnesinu?

Það eru mörg tæki auglýst um heim allan sem það besta síðan skorið brauð en það er ekki alltaf svo að tæknin sé eins frábær og sagt er í glanstímaritum.

Snjallúr
Snjallúr er eitt af þeim tækjum sem að ég hef ekki enn náð fullri sátt við þrátt fyrir að vera svokallaður nörd og hafa prófað flest snjallúr sem til eru og haft snjallúr á úlnliðnum á hverjum degi í mörg ár.

Þessi úr eða litlu tölvurnar sem þessi úr vissulega eru eiga að auðga líf okkar, veita okkur innsýn um okkur sjálf sem að við höfum ekki aðgang að öllu jafnan og einfalda lífið svo um munar.

Það er kannski ekki alveg þannig. Það fyrsta sem ég tel upp er eiginlega banabiti snjallúranna eins og staðan er í dag. Það þarf að hlaða þau nær daglega, það síðasta sem að ég geri áður en ég fer að sofa er að skella úrinu mínu í hleðslu. Ef að ég gleymi því get ég bara gleymt því að vera með úrið daginn eftir eða þá þarf að hlaða það í vinnunni. (Hægt ef maður hefur splæst í annað hleðslutæki eða ef úrið styður þráðlausa hleðslu og maður lumar á hleðslumottu í vinnunni)

Það gerist líka stundum að ég hef sett úrið í hleðslu samviskusamlega kvöldið áður en gleymi því svo í hleðsludokkunni og fer með allsberann úlnliðinn út í daginn. Pebble er eina snjallúrið sem ég hef átt þar sem hlaða þarf aðeins einu sinni í viku en Pebble er samt ekki eins fullkomið og Apple Watch eða snjallúr sem keyra Android Wear.

Snjallúrin skella svo tilkynningum úr símanum á úlnliðinn sem er oft mjög þægilegt en getur líka bara verið bévítans truflun. Það endaði með því að ég hef stillt úrið til að sýna aðeins tilkynningar frá ákveðnum öppum sem að ég vil fá, annað fer bara í símann. Þægilegt þá já, en ekkert allir notendur og þá ekki þeir sem kallast venjulegir notendur sem nenna að standa í því eða hreinlega hafa kunnáttu til þess.

Það frábæra við snjallúr og það sem ég elska hvað mest við þau er að ég get stýrt öppum í gegnum úrið. Mér finnst það frábært til að stýra Spotify, ég get stýrt sjónvarpinu mínu þegar að stelpurnar vilja horfa á annan þátt af einhverjum uppeldisþættinum sem að mun gera þær að heilsteyptari manneskjum og haldið áfram að saxa blaðlauk og hræra í sósunni og þannig sloppið við ferð inn í stofuna. Þetta eru samt lúxusvandamál, réttlæta ekki verðmiðann á þessum úrum.

Annað sem er frábært við snjallúr, eitthvað sem reyndar er hægt að gera með símanum líka en er einfaldlega þægilegra með úrinu er að gúggla, biðja það að taka tímann og setja niður áminnningar byggðar á staðsetningu. Þannig get ég auðveldlega sett tímann af stað þegar eitthvað fer inn í ofn, auðveldlega breytt úr fahrenheit yfir í celsíus, breytt únsum í grömm, spurt um veðrið í Boston afþví að Kristín er að fara þangað, spurt hvernig litla systir er sagt á japönsku bara afþví að Margrét Dúna vill vita það og beðið úrið/símann að minna mig á að taka kassann úr skottinu þegar ég er næst hjá mömmu og pabba.

En að tala í úrið í símtali mun enginn sjá mig gera, það er bæði mega hallærislegt og ekki töff. Dick Tracy og Captain Kirk voru ekki töff að tala í úlnliðinn á sér.

Púls og skrefamælar ásamt því að skynja hversu fljótur ég er að sofna og meta hversu vel ég sef framkvæma sum úrin svo. Púls og skrefamælingar eru allt í lagi, ég tek samt úrið af mér ef ég er að hreyfa mig af einhverju ráði. Og ég hef ekkert við svefnmælingar að gera, þá er úrið í hleðslu. Hlaupafólk ætti að kaupa fitness mæla eins og Fitbit, Garmin og allt það dót sem getur svo líka mælt svefninn og þarf ekki hleðslu nær daglega.

smart-watches

Þetta varð óvart mjög langt, geymi því fleiri tæki í þessa upptalningu þangað til næst. Hvenær sem það verður.

 

 

Listi – Tækjalisti

Alveg síðan í júní 2000 þegar ég byrjaði að skrifa hingað inn hefur mikið og margt verið skrifað. Oftast um mig sjálfan (frábær.net kallast síðan í lokuðum hópum), tónlist eða tækjadót.

Þetta er eitt af þessum tækjabloggum. Þau eru mörg raftækin og hlutirnir sem ég tók úr plasti og ýti á On takkann eða hlutir þarna á netinu í þessu svokallaða skýi sem að ég byrjaði að nota á því herrans ári 2015. En hvað stendur upp úr?

Kindle lesbrettið (e-reader) frá Amazon er eflaust það tæki sem hefur gefið mér mest. Ég hef oft tekið rispur og lesið mikið en svo koma tímar þar sem ég les lítið sem ekki neitt. Eftir að Kindle mætti í fíngerðar en þó karlmannlegar hendur mínar hef ég lesið ógrynni af bókum. Ef ég ætti að nefna einhverjar bækur sem standa upp úr og þú lesandi góður hefur kannski engan áhuga mætti til dæmis nefna :

paperwhite

 

Fjarstýring er kannski ekki tæki sem ætti heima í svona upptalningu en mig varðar ekkert um það. Á venjulegum heimilum í dag eru fjölmargar fjarstýringar fyrir hin og þessi tæki sem öll tengjast í sjónvarpið. Til að spara pláss á stofuborðinu og einfalda málin (fyrir flesta, nefni engin nöfn (Kristín!)) er hér ein fjarstýring sem gerir allt og Margrét Dúna 5 og hálfs skilur hana meira að segja. Logitech Harmony er frábær all-in-one græja. Beisík!

harmony-elite-gallery1

 

Allar þessar ljósmyndir og myndbönd. Bæði gamlar partýmyndir, endalausar myndir af Margréti Dúnu og Guðrúnu Evu og svo allar myndirnar sem teknar eru á símann. Endalaust magn og endalausar minningar. Það er rugl og þvæla árið 2016 að geyma ljósmyndir á hörðum diskum, þetta á og skal vera í skýinu svo að ekki ein mynd glatist. Harðir diskar eiga það til að bila og það getur verið erfitt og virkilega dýrt að bjarga gögnum af þeim. Það eru til margar þjónustur sem leysa þetta vandamál en sú sem ég er ánægðastur með og elska bara virkilega mjög mikið eins furðulega og það hljómar er Google Photos.

Þangað hendast sjálfkrafa inn allar myndir og video sem ég tek á snjallsímann og ég skellti öllum myndum sem að ég átti í fórum mínum þangað inn líka. Þannig eru myndirnar öruggar fyrir gagnatapi ef harðir diskar bila en snilldin er auðvitað þegar að Google láta algrími sín og gagnaver skoða myndirnar mínar. Þannig búa þeir til hreyfimyndir úr myndunum mínum, setja myndir úr ferðalögum sjálfkrafa saman, lærir að þekkja fólkið á myndunum og hluti og þannig get ég auðveldlega leitað af myndum ekki bara eftir dagsetningu heldur hverjir og hvað er á myndunum.

Þannig getur leit eins og „Kristín with beer in Brussels” skellt upp öllum myndum teknar í Brussel og þar sem Kristín ástkær eiginkonan mín kemur fyrir með bjór í hendi komið á skjáinn á einu augabragði.

 

Tónlistarleg uppeldi Rúnars Skúla

Ef þið ættuð að elta einn lagalista á Spotify að þá mæli ég sérstaklega með Tónlistarlegu uppeldi Rúnars Skúla.

Drengurinn sá vissi ekki hver Bruce Springsteen eða Valgeir Guðjónsson væru þegar við áttum tal saman við kaffivél eina á sameiginlegum vinnustað okkar og því varð að gera eitthvað í málunum. Smám saman er ég að týna gullmola inn í þennan lagalista frá hinum og þessum tímabilum.

Það vantar ýmislegt þarna inn, en það er í vinnslu. Eftir sem áður er þetta undraverður lagalisti svona þó að ég segi sjálfur frá.