Eitt sinn var sá háttur hafður á að maður tók öryggisafrit af öllum plötum sem manni hugnaðist að hlusta á eftir að hafa legið yfir mp3bloggum og Hype Machine að finna nýtt efni til að hlusta á, efni sem hreinlega beið uppgötvunar. Ef efnið var manni að skapi og maður fann eitthvað sem maður fílaði alveg sérstaklega mikið var veskið tekið upp og platan keypt í næstu búð eða á netinu. Helst beint frá býli ef það var þá hægt eins og oft var og er hægt að gera með minni listamenn sem ekki hafa brotist alla leið í gegn í þessum sturlaða bransa.
Eftir að Spotify og aðrar streymisveitur mættu á svæðið hefur hegðunarmynstrið breyst og maður er alveg hættur að lesa öll þessi mp3blogg. Spotify sem er mín streymiþjónusta hefur einhvern veginn alveg tekið við og hlustarmynstrið breyst eftir því.
Sá fídus sem ég elska hvað mest af öllu við Spotify kom í fyrra og kallast Discover Weekly.
Þessi yndislegi fídus sem ég elska mikið virkar þannig að hvern mánudag uppfærist playlisti í þínu Spotify sem heitir einfaldlega Discover Weekly. Hann uppfærist eftir því hvað maður hefur verið að hlusta á og Spotify nýtir öll sín gögn og kerfi til að finna út hvað maður ætti að fíla út frá þeirri hlustun og hvað aðrir sem hlusta á svipaða og sömu tónlist og maður sjálfur eru að hlusta á sem maður hefur ekki rennt í gegnum spilarann.
Þannig hef ég fundið falda mola sem hreinlega hafa gleymst og maður mundi hreinlega ekki eftir að væru til ásamt því að kynnast nýjum tónlistarmönnum sem og gömlum sem aldrei hafa fengið athygli hjá manni.
Þannig byrjaði einhver skrýtin ást mín á Norður-Írsku sveitinni Devine Comedy sem ég hef hundrað sinnum heyrt um en aldrei hlustað á. Hef verið með lagið Tonight We Fly á non-stop repeat síðan það datt inn á Discover Weekly listann minn.
Svo hafa Sænskir gullmolar dottið inn en ég hef alltaf verið veikur fyrir indie poppi og rokki frá Svíþjóð. Joel Alme sem ég veit í raun engin deili á hefur þar staðið uppi sem snillingur.